Ísland jafnaði af vítapunktinum í lokin

Tómas Óli Kristjánsson, Sverrir Páll Ingason og Helgi Hafsteinn Jóhannsson …
Tómas Óli Kristjánsson, Sverrir Páll Ingason og Helgi Hafsteinn Jóhannsson fagna marki í fyrri hluta undankeppninnar á Íslandi í haust. mbl.is/Ólafur Árdal

Ísland og Pólland skildu jöfn, 1:1, í fyrsta leiknum í undankeppni Evrópumóts drengja U17 ára í knattspyrnu í Koszalin í Póllandi í dag.

Pólverjar komust yfir með marki frá Filip Karmelita á 29. mínútu og staðan var 1:0 í hálfleik.

Ísland fékk vítaspyrnu á 54. mínútu þegar brotið var á Gunnari Orra Olsen en Jakub Zielinski markvörður varði frá Tómasi Óla Kristjánssyni með því að verja boltann í stöngina og út.

En á 89. mínútu var dæmd önnur vítaspyrna á Pólverja, nú eftir brot á  Tómasi Óla. Hann fór aftur á vítapunktinn og að þessu sinni jafnaði hann metin af öryggi, 1:1.

Belgía vann Írland, 1:0, í hinum leik riðilsins. Ísland mætir Belgíu á laugardaginn og Írlandi á þriðjudaginn en í húfi er eitt sæti í lokakeppni Evrópumótsins í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert