Finnski knattspyrnumarkvörðurinn Matias Niemelä hefur samið við Vestra til þriggja ára og verður lánaður til 1. deildarliðs Grindvíkinga á komandi tímabili.
Vestramenn tilkynntu þetta í dag en þeir hafa þegar samið við Hollendinginn Guy Smit um að koma til þeirra frá KR og verja mark liðsins í Bestu deildinni á þessu ári.
Niemelä er 23 ára gamall og kemur til Vestra frá TPS Turku en hann lék 23 leiki í marki liðsins í finnsku B-deildinni á síðasta tímabili.
Árið 2023 var hann varamarkvörður KTP Kotka í efstu deild og spilaði sex leiki. Niemelä var í röðum HJK Helsinki, öflugasta félags Finnlands, í tvö ár þar á undan og spilaði með varaliði félagsins í C-deildinni.
Áður spilaði hann 11 leiki með RoPS Rovaniemi í efstu deild árið 2020 og með liði Espoo þar sem hann hóf ferilinn í C-deildinni árið 2018, þá 16 ára gamall.
Niemalä á að baki einn leik með finnska U18 ára landsliðinu.