Stjarnan tekur sæti FH í undanúrslitum

Gyða Kristín Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í Stjörnunni sækja Þór/KA …
Gyða Kristín Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í Stjörnunni sækja Þór/KA heim í undanúrslitum. mbl.is/Óttar

Stjarnan mætir Þór/KA í undanúrslitum deildabikars kvenna í knattspyrnu í stað FH eins og stóð til. FH hefur gefið sæti sitt í undanúrslitum eftir vegna æfingaferðar sem liðið er á leið í.

Þetta staðfesti Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, í stuttu samtali við mbl.is.

Sagði hann FH vera á leið í æfingaferð erlendis frá föstudeginum 21. mars til 28. mars. Undanúrslitaleikur Þórs/KA og Stjörnunnar fer fram í Boganum á Akureyri 24. mars og úrslitaleikurinn fer svo fram 28. mars.

FH hefði því ekki átt heimangengt í hvorugan leikinn vegna æfingaferðarinnar. Upphaflega var það Víkingur úr Reykjavík sem átti að fara áfram í undanúrslitin eftir að hafa endað með átta stig í 2. riðli A-deildar deildabikarsins.

Víkingur tefldi hins vegar fram ólöglegum leikmanni í lokaumferð riðilsins og var dæmdur 0:3 ósigur gegn Keflavík. FH endaði líka með átta stig en var með slakari markatölu og átti því að taka sætið. Stjarnan kom svo í fjórða sæti með sjö stig en er nú á leið í undanúrslitaleikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert