„Stoltur og ánægður“

Framherjinn Orri Steinn Óskarsson, nýr landsliðsfyrirliði Íslands í fótbolta, á …
Framherjinn Orri Steinn Óskarsson, nýr landsliðsfyrirliði Íslands í fótbolta, á æfingu landsliðsins í Alicante á Spáni í gær. Ljósmynd/KSÍ

Orri Steinn Óskarsson, leikmaður Real Sociedad á Spáni, var útnefndur fyrirliði karlalandsliðsins í fótbolta af þjálfaranum Arnari Gunnlaugssyni á dögunum. Hann er á leiðinni í sitt fyrsta verkefni sem fyrirliði, en Ísland mætir Kósovó í tveimur leikjum í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar í vikunni.

Fyrri leikurinn er í Kósovó annað kvöld og sá seinni í Murcia á Spáni á sunnudag. Er það heimaleikur Íslands en ekki er hægt að leika á Íslandi vegna framkvæmda á Laugardalsvelli.

„Ég átti ekki von á þessu en ég er gríðarlega stoltur og virkilega ánægður með að hafa fengið traustið og ég hlakka til að leiða strákana inn í geggjaða tíma,“ sagði Orri í samtali við Morgunblaðið á hóteli landsliðsins í Alicante á Spáni.

Mjög jákvæð samtöl

„Arnar lét mig vita svolítið fyrir þennan glugga. Við spjölluðum nokkrum sinnum vel saman. Hann heimsótti mig svo til Spánar og við fengum að kynnast hvor öðrum. Þá fékk hann að kynnast því hvað ég hef fram að færa sem fyrirliði. Þetta voru mjög jákvæð samtöl,“ bætti Orri við.

Framherjinn er enn aðeins tvítugur og yngsti leikmaðurinn í núverandi landsliðshópi og kom ákvörðunin því mörgum á óvart, ekki síst Orra sjálfum, sem lét sig ekki dreyma um fyrirliðahlutverkið.

„Ég var í smá sjokki. Sem lítill drengur vonast maður alltaf til að komast í landsliðið en maður hugsaði aldrei út í að vera fyrirliði. Það fá alls ekki allir að upplifa það á ferlinum. Ég er mjög glaður og stoltur og þetta er eitt stærsta augnablikið á ferlinum til þessa.“

Tólf ára í Frakklandi

Orri mætti á EM 2016 í Frakklandi til að fylgjast með leikjum Íslands ásamt fjölskyldu. Þar var Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði en nú er Orri orðinn fyrirliði, þrátt fyrir að Aron sé í hópnum.

„Ég var tólf ára og var í Frakklandi á leikjunum. Þá hugsaði ég að Aron Einar yrði fyrirliði að eilífu. Hann var geggjaður í þessu hlutverki og það er æðislegt fyrir mig að hafa hann hér til að hjálpa mér að taka fyrstu skrefin í þessu verkefni. Það hjálpar mér mikið að hafa Aron og þessa eldri stráka,“ sagði Orri.

En hvað gerir Orra að góðum fyrirliða, að hans eigin mati?

„Ég myndi segja að ég sé mikil félagsvera og ég tengi við alla í liðinu, sama á hvaða aldri þeir eru. Ég er með góða rödd á vellinum og get gefið mikið af mér. Mér hefur svo verið lýst sem leikmanni sem hægt er að treysta á. Ég get verið góð fyrirmynd á vellinum og tekið ábyrgð. Það er mikilvægt sem fyrirliði.“

Viðtalið við Orra má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert