Vonbrigði hversu seint þetta greindist

Glídís Perla Viggósdóttir, Diljá Ýr Zomers og Þorsteinn Halldórsson.
Glídís Perla Viggósdóttir, Diljá Ýr Zomers og Þorsteinn Halldórsson. Ljósmynd/Alex Nicodim

Diljá Ýr Zomers, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Leuven í Belgíu, glímir um þessar mundir við meiðsli sem hafa haldið henni lengi frá keppni og munu gera enn um sinn þar sem álagsbrot í rist greindist seint og um síðir.

„Auðvitað voru það vonbrigði að þetta greinist svona seint, að það hafi komið svona seint í ljós hvað þetta raunverulega var. Ef allt væri eðlilegt væri hún klár í dag ef þetta hefði verið greint rétt í byrjun.

Það voru ákveðin vonbrigði með það,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Fær ekki langan tíma inni á vellinum

Í samtali við Fótbolta.net í síðustu viku skýrði Dilja Ýr frá því að hún hafi verið búin að vera í endurhæfingu vegna meiðsla í átta vikur þegar loks kom í ljós að bein í ristinni væri brotið.

„Þetta tekur einhvern tíma og hún fær ekkert langan tíma inni á vellinum með Leuven þangað til þær fara í sumarfrí. Það eru ákveðin vonbrigði hvernig þessir hlutir fóru með hana.

Hún verður örugglega orðin frísk fyrir EM en svo er það hin spurningin, hversu margar mínútur hún er með undir beltinu og hversu tilbúin hún verður til að spila á hæsta stigi,“ bætti Þorsteinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert