Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, vonast til þess að Íslendingar fjölmenni á heimaleiki liðsins gegn Sviss og Noregi í A-deild Þjóðadeildarinnar í næsta mánuði, sem fara fram á gervigrasvelli Þróttar úr Reykjavík í Laugardalnum.
„Það er bara fínt sko. Þetta er auðvitað breyting en flestir leikmenn hafa einhvern tímann spilað þarna. Grasið er gott þarna. Mér leið nú alveg vel þegar ég var þarna sjálfur þannig að þetta er ekkert nýtt fyrir mig. Ég var þarna í mörg ár.
Það er bara tilhlökkun hjá okkur að vera í Laugardalnum. Vonandi mætir fólk á völlinn, kaupir alla miða sem hægt er að kaupa, fylli völlinn og styðji við okkur,“ sagði Þorsteinn á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í gær um hvernig það væri að spila á gervigrasinu í Laugardal.
„Það hjálpar og skiptir máli. Við sáum það síðasta sumar að þetta skiptir allt máli, að fólk mæti á völlinn og styðji við liðið. Mér finnst leikmenn og liðið eiga það skilið,“ bætti hann við.
Þorsteinn þekkir vel til hjá Þrótti þar sem hann lék með liðinu síðustu ár leikmannaferilsins og þjálfaði karlaliðið árin 2006 og 2009. Auk þess lék hann reglulega á gervigrasinu í Laugardal þegar allir leikir Reykjavíkurmótsins fóru þar fram á sínum tíma.
Á fundinum var Þorsteinn spurður hver uppáhalds minning hans af Þróttaravelli væri og svaraði hann um hæl:
„Það er örugglega þegar gervigrasið var þarna fyrst og ég varð Reykjavíkurmeistari 1988. Það var enginn af ykkur fæddur þá!“
Beindi Þorsteinn, sem lék með KR frá 1986 til 1992, orðum sínum að viðstöddum fréttamönnum. Ofanritaður var reyndar eini fréttamaðurinn af þeim sem voru viðstaddir sem var fæddur vorið 1988 en að vísu þá einungis sex mánaða gamall.