Getum ekki fengið þannig mörk á okkur

Hákon Rafn Valdimarsson á fleygiferð í leiknum í kvöld.
Hákon Rafn Valdimarsson á fleygiferð í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þetta var ágætis frammistaða,“ sagði Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Kósóvó í fyrri leik liðanna í umspili Þjóðadeildarinnar í Pristína í Kósóvó í kvöld.

Síðari leikur liðanna fer fram í Murcia á Spáni á sunnudaginn kemur en sigurvegarinn í einvíginu leikur í B-deild Þjóðadeildarinnar á næsta keppnistímabili en tapliðið fellur í C-deildina.

„Við vorum að reyna nýja hluti sem gengu ágætlega inn á milli en svo lentum við í smá brasi með þá líka. Pressan er eitthvað sem við þurfum að skoða en eins og ég sagði áðan vorum við að reyna nýja hluti og það tekur tíma,“ sagði Hákon Rafn.

Gekk stundum vel

Leikurinn var kaflaskiptir hjá íslenska liðinu og tók Hákon undir það.

„Það er alveg hægt að segja það. Þegar allt var að virka hjá okkur gekk þetta vel en þegar hlutirnir gengu ekki vel þá vorum við opnir. Við lögum það fyrir næsta leik og mætum sterkir til leiks. Kósóvarnir voru góðir en við eigum eigum góða möguleika á því að vinna þá og við munum gera það á Spáni.“

Pirrandi mörk að fá á sig

Hákon fékk á sig tvö mörk í kvöld og gat lítið gert í þeim báðum.

„Þetta voru frekar pirrandi mörk að fá á sig. Bæði skotin fara í gengum klofið á varnarmanninum og fyrsta markið sem við fáum á okkur kemur eftir fast leikatriði. Við getum ekki fengið þannig mörk á okkur, svo einfalt er það. Við þurfum samt að spila betur, það er klárt mál,“ sagði Hákon í samtali við mbl.is.

Albert Guðmundsson í baráttunni í kvöld.
Albert Guðmundsson í baráttunni í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert