„Það tekur tíma að breyta liðinu í lið sem á að vera mikið með boltann,“ sagði Kári Árnason, fyrrverandi leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, í myndveri Stöðvar 2 Sport eftir fyrri leik Kósóvó og Ísland í umspili Þjóðadeildarinnar í Pristína í kvöld.
Kósóvó vann nokkuð þægilegan sigur, 2:1, en íslenska liðið virkaði óöruggt á stórum köflum í leiknum og var rætt um nálgun landsliðsþjálfarans Arnars Gunnlaugssonar í myndveri eftir leik en leikurinn var sá fyrsti undir stjórn nýja þjálfarans.
Liðin mætast á nýjan leik í Murcia, sem er heimaleikur Íslands í einvíginu, á sunnudaginn kemur en sigurvegarinn í einvíginu leikur í B-deild Þjóðadeildarinnar á næstu leiktíð á meðan tapliðið fellur í C-deild.
„Það tekur mjög langan tíma að búa til þannig lið og maður þekkir það af eigin skinni,“ sagði Kári sem er í dag yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi úr Reykjavík.
„Við vorum í tvö ár í fallbaráttu áður en hlutirnir fóru að ganga upp hjá okkur og í þessum bolta þá færðu bara einhverja tíu leiki á ári og fáar æfingar líka. Hefur íslenska þjóðin þolinmæði fyrir þessu? Ég bara veit það ekki.
Þetta snýst fyrst og fremst um úrslit og það er öllum slétt sama um einhverja fagurfræði, svo lengi sem við vinnum leiki. Auðvitað er hann að hugsa um það að vinna leiki en þetta má ekki taka tvö ár,“ sagði Kári meðal annars.