Tap í fyrsta leik Arnars

Ísland mátti þola tap gegn Kósóvó, 2:1, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildar karla í fótbolta í Pristína, höfuðborg Kósóvó, í kvöld. Seinni leikurinn fer fram í Murcia á Spáni á sunnudag.

Íslenska liðið byrjaði ágætlega, hélt boltanum vel innan liðsins fyrstu mínúturnar og spilaði honum vel með jörðinni.

Heimamenn áttu hins vegar fyrstu tvær tilraunirnar eftir rúmlega tíu mínútna leik en voru víðsfjarri með skotum langt fyrir utan teig.

Íslenskir áhorfendur í Pristína í kvöld.
Íslenskir áhorfendur í Pristína í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Hinum megin gekk íslenska liðinu illa að skapa sér opin færi. Guðlaugur Victor Pálsson átti hættulega fyrirgjöf á 18. mínútu en boltinn endaði í fanginu á Arijanet Muric í marki Kósóvó.

Örskömmu síðar, eða á 19. mínútu, komst Kósóvó yfir er Lumbardh Dellova skoraði með hnitmiðuðu skoti eftir að Íslandi mistókst klaufalega að koma boltanum í burtu eftir fyrirgjöf frá hægri.

Ísland jafnaði hins vegar aðeins þremur mínútum síðar þegar Ísak Bergmann Jóhannesson átti fallega stungusendingu á Orra Stein Óskarsson sem fór glæsilega framhjá Muric og afgreiddi boltann einstaklega vel í fjærhornið úr þröngu færi.

Orri Steinn Óskarsson fer framhjá markverði Kósóvó og augnabliki síðar …
Orri Steinn Óskarsson fer framhjá markverði Kósóvó og augnabliki síðar hafði hann jafnað, 1:1. Ljósmynd/Alex Nicodim

Orri Steinn og Albert Guðmundsson áttu síðan báðir ágætar tilraunir utan teigs í kjölfarið en þá fór boltinn beint Muric í markinu.

Heimamenn sköpuðu sér næsta færi á 43. mínútu en þá átti Vedat Muriqi hættulegan skalla að marki en Hákon Rafn Valdimarsson var vel staðsettur í markinu og gerði vel í að verja og Donat Rrudhan setti boltann yfir í kjölfarið.

Reyndist það síðasta færið í fyrri hálfleik og var staðan jöfn, 1:1, þegar liðin gengu til búningsklefa eftir fyrri hálfleik.

Íslensku leikmennirnir fagna jöfnunarmarki Orra Steins Óskarssonar.
Íslensku leikmennirnir fagna jöfnunarmarki Orra Steins Óskarssonar. Ljósmynd/Alex Nicodim

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og fóru fyrstu tíu mínútur hans nær eingöngu fram á vallarhelmingi Íslands. Amir Rrahmani átti hættulegan skalla að marki á 57. mínútu en Hákon Rafn var vel á verði.

Hann kom hins vegar engum vörnum við á 58. mínútu þegar Elvis Rexhbecaj skilaði boltanum í stöng og inn með góðu skoti eftir að Hákon Arnar missti boltann á hættulegum stað.

Orri Steinn var nálægt því að jafna aftur á 69. mínútu er hann náði lúmsku skoti í teignum en Muric gerði mjög vel í að verja frá honum. Var það fyrsta tilraun Íslands í seinni hálfleik.

Orri Steinn Óskarsson fyrirliði fremstur í upphitun í kvöld.
Orri Steinn Óskarsson fyrirliði fremstur í upphitun í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Varamaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson komst nálægt því að jafna á 81. mínútu er hann dansaði með boltann í teignum og bjó sér til færi en skotið var ekki nægilega gott og boltinn beint á Muric.

Andri Lucas Guðjohnsen fékk annað gott færi á 85. mínútu er hann komst nánast einn gegn Muric eftir sendingu Orra en markvörðurinn bjargaði með tæklingu á síðustu stundu.

Nær komst íslenska liðið ekki og þarf að treysta á sigur í Murcia eftir þrjá daga.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Kósóvó 2:1 Ísland opna loka
90. mín. +4 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert