„Skítuga hliðin á leiknum var ekki til staðar“

Arnar Gunnlaugsson var svekktur í leikslok.
Arnar Gunnlaugsson var svekktur í leikslok. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þetta var upp og niður hjá okkur í kvöld,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Kósóvó í fyrri leik liðanna í umspili Þjóðadeildarinnar í Pristína í Kósóvó í kvöld.

Síðari leikur liðanna fer fram í Murcia á Spáni á sunnudaginn kemur en sigurvegarinn í einvíginu leikur í B-deild Þjóðadeildarinnar á næsta keppnistímabili en tapliðið fellur í C-deildina.

Margt mjög jákvætt

„Það var margt mjög jákvætt í okkar leik og svo voru líka ákveðnir hlutir sem við þurfum að laga. Það gladdi mig mikið hvað við vorum góðir á boltann í fyrri hálfleik og markið okkar var frábært. Við spiluðum þá sundur og saman og þeir snertu ekki boltann í langan tíma í aðdraganda marksins. Pressan okkar var ekki nægilega góð í fyrri hálfleik en fyrsta korterið í seinni hálfleik var hreinasta hörmung.

Það vantaði alla ákefð, við náðum engum takti í uppspilinu okkar og töpuðum öllu seinni boltunum. Skítuga hliðin á leiknum var ekki til staðar og maður beið hálfpartinn eftir því að þeir myndu skora. Þeir skora svo mark eftir mistök hjá okkur og við reyndum að hrista upp í liðinu eftir það. Varamennirnir okkar komu sterkir inn í leikinn og bæði lið fengu færi til þess að skora fleiri mörk,“ sagði Arnar.

Fengu blóð á tennurnar

Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleikinn illa og markið hjá Kósóvó hafði legið lengi í loftinu þegar þeir komust loksins yfir.

„Ég á eftir að vega og meta það hvað klikkaði hjá okkur í hálfleik. Það eru lítil smáatriði sem skilja að en stundum þurfa menn að bretta upp ermarnar og vinna návígin sín. Ég man ekki eftir einu návígi sem við unnum á þessum fimmtán mínútna kafla í síðari hálfleik og það kveikti í þeirra stuðningsmönnum.

Leikmenn Kósóvó fengu líka blóð á tennurnar við þetta og við leyfðum þeim að taka yfir leikinn. Þessi augnablik skilja að þegar allt kemur til alls. Við vorum með tekníska miðja í dag en þú verður að taka þátt í skítavinunni,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is.

Sverrir Ingi Ingason og Guðlaugur Victor Pálsson verjast í Pristína …
Sverrir Ingi Ingason og Guðlaugur Victor Pálsson verjast í Pristína í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert