„Standið á mér er mjög gott,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta til margra ára, í samtali við mbl.is en Ísland leikur við Kósovó í kvöld í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar.
„Mér hefur sjaldan liðið betur síðustu ár. Þetta var erfitt síðasta tímabil þegar ég fór í aðgerð á hásin og spilaði ekkert. Ég hef verið að koma mér hægt og rólega í þetta og er með mikið hungur og öðruvísi virðingu við íþróttina.
Ég sá skemmtilegt viðtal við Aron Pálmarsson í handboltalandsliðinu þar sem hann talaði um þetta sama. Hann fór heim í FH og ég fór heim í Þór. Þú lítur á íþróttina aðeins öðruvísi augum,“ sagði Aron.