Þórir Jóhann Helgason, leikmaður ítalska A-deildarliðsins Lecce, er kominn aftur í íslenska landsliðið í fótbolta eftir fjarveru en Þórir var ekki inni í myndinni hjá Åge Hareide þegar sá norski stýrði liðinu.
Miðjumaðurinn var hins vegar í fyrsta landsliðshópi Arnars Gunnlaugssonar fyrir leikina tvo við Kósovó í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar.
Þórir á 16 landsleiki að baki og hefur skorað tvö mörk en lék síðast með landsliðinu gegn Lettlandi og Litháen í nóvember 2022.
„Það er virkilega gott að vera mættur aftur í landsliðstreyjuna, gaman að sjá strákana aftur og gaman að vera kominn aftur í þetta umhverfi. Það var alltaf markmiðið að koma aftur inn í hópinn og vonandi næ ég að halda mér þar.
Ég var utan hóps í einhver tvö ár og það var leiðinlegt en maður verður að halda áfram, leggja sig fram og sýna að maður eigi heima í þessum hópi,“ sagði Þórir í samtali við mbl.is en hann hefur verið fastamaður í liði Lecce undanfarnar vikur og verið í byrjunarliðinu í átta af síðustu tíu leikjum.