Framherjinn Benoný Breki Andrésson lék fyrri hálfleikinn er hann og liðsfélagar hans í U21 árs landsliðinu í fótbolta sigruðu Ungverjaland, 3:0, í vináttuleik í Pinatar á Spáni í dag.
Benoný fékk aðhlynningu undir lok fyrri hálfleiksins og var svo tekinn af velli áður en seinni hálfleikurinn fór af stað. Hann hefur ekki áhyggjur af meiðslunum.
„Heilsan er mjög góð. Ég fékk smá högg en fór út af því ég vildi ekki taka neina áhættu. Það er alls ekkert til að hafa áhyggjur af,“ sagði hann við mbl.is.
Benoný var ánægður með öruggan sigur í dag.
„Þetta var fínt. Við héldum boltanum miklu meira en þeir og fannst við miklu betri. Við skoruðum þrjú mörk, náðum í sigurinn og ég er mjög sáttur við það.“