Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, skipaði Orra Stein Óskarsson nýjan landsliðsfyrirliða á dögunum.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði til margra ára, er því í sínu fyrsta landsliðsverkefni í meira en áratug þar sem hann ber ekki fyrirliðabandið.
„Arnar talaði við mig um þetta og mér finnst þetta góð þróun. Mér finnst mikið betra að þetta sé gert svona á meðan ég er á svæðinu til að aðstoða ef þess þarf og kenna mönnum að taka við, ef þeir vilja.
Það er betra en að rífa plásturinn af þegar maður er hættur. Þetta var rétt ákvörðun hjá þjálfaranum að taka núna. Að gefa ungu strákunum hærri rödd og aukna ábyrgð er mikilvægt fyrir þá. Þeir þurfa að stíga upp,“ sagði Aron um ákvörðunina í samtali við mbl.is.