„Það var gaman að spila þennan leik og alltaf gaman að spila fyrir landsliðið,“ sagði Helgi Fróði Ingason í samtali við mbl.is eftir að hann og liðsfélagar hans í U21 árs landsliðinu í fótbolta unnu öruggan sigur á Ungverjalandi, 3:0, í vináttulandsleik í Pinatar á Spáni í dag.
Ísland var með 2:0-forystu í hálfleik og innsiglaði sigurinn með þriðja markinu þegar skammt var eftir, en fyrri hálfleikurinn var sérstaklega vel leikinn hjá íslenska liðinu.
„Við gerðum þetta vel saman og sérstaklega í fyrri hálfleik, sem var frábær. Við gerðum þetta vel og þegar við spilum svona vel er erfitt að spila á móti okkur. Við viljum að það sé erfitt að spila á móti okkur.
Við héldum boltanum vel innan liðsins og vorum hættulegir á síðasta þriðjungi. Við erum með tvo stóra framherja sem geta klárað færin og eru frábærir. Þeir eru hreyfanlegir og gott að spila með þeim,“ sagði hann.
Helgi átti sjálfur mjög góðan leik og var síógnandi á vinstri kantinum. Hann lagði upp fyrsta mark leiksins á Hilmi Rafn Mikaelsson.
„Mér leið mjög vel og það er geðveikt að spila með Daníel í bakverðinum. Hann talar mikið í vörninni og í sókninni tekur hann góð hlaup sem opnar fyrir mig. Fyrirgjöfin var fín en skallinn hjá Hilmi var geggjaður,“ sagði Helgi.