Ísland vann sannfærandi sigur á Ungverjalandi, 3:0, í vináttulandsleik 21-árs liða karla í knattspyrnu í dag en leikið var á Pinatar Arena í Murcia-héraði á Spáni.
Ísland náði forystunni á 15. mínútu þegar Helgi Fróði Ingason átti góðan sprett upp vinstri kantinn og sendi fyrir markið þar sem Hilmir Rafn Mikaelsson var mættur og skoraði með glæsilegum skalla upp í hægra hornið, 1:0.
Á 36. mínútu átti síðan Daníel Freyr Kristjánsson fyrirgjöf frá vinstri og fyrirliði Ungverja sendi boltann í eigið mark af markteignum, aðþrengdur af Hilmi Rafni. Staðan var því 2:0 í hálfleik.
Litlu munaði að Hilmir kæmi Íslandi þremur mörkum yfir snemma í síðari hálfleik en markvörður Ungverja varði glæsilega frá honum.
Þriðja markið kom á 69. mínútu þegar Hinrik Harðarson fékk langa sendingu fram völlinn. Hann var einn gegn varnarmanni Ungverja og skoraði með lúmsku skoti í stöngina nær og inn, 3:0.
Litlu munaði að Guðmundur Baldvin Nökkvason næði að bæta við fjórða markinu undir lok leiksins.
Lið Íslands: (4-4-2) Mark: Halldór Snær Georgsson. Vörn: Jóhannes Kristinn Bjarnason (Ásgeir Helgi Orrason 79.), Logi Hrafn Róbertsson (Baldvin Þór Berndsen 85.), Hlynur Freyr Karlsson, Daníel Freyr Kristjánsson (Baldur Kári Helgason 85.). Miðja: Ágúst Orri Þorsteinsson (Adolf Daði Birgisson 66.), Eggert Aron Guðmundsson (Guðmundur Baldvin Nökkvason 66.), Haukur Andri Haraldsson, Helgi Fróði Ingason (Róbert Frosti Þorkelsson 66.) Sókn: Hilmir Rafn Mikaelsson (Dagur Örn Fjeldsted 79.), Benoný Breki Andrésson (Hinrik Harðarson 46.)
Varamarkvörðurinn Arnar Logi Jóhannesson var sá eini sem kom ekki við sögu.
Strákarnir mæta Skotum í vináttuleik á sama stað á þriðjudaginn.