„Það voru margir góðir hlutir sem gáfu það til kynna að við gætum átt góða daga fram undan,“ sagði Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari karla í fótbolta í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Kósóvó, 2:1, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar í gær.
„Þessi alþjóðlegi fótbolti er grimmur og þér er refsað. Þeir gerðu vel í að refsa og það getur gerst þegar þú ert að bíða eftir að eitthvað gerist, í staðinn fyrir að sækja hlutina,“ sagði Arnar, sem vill betri frammistöðu í seinni leiknum í Murcia á sunnudag.
„Við viljum heilsteyptari frammistöðu í 90 mínútur. Varnarleikurinn var ekki nógu góður hjá öllum aðilum. Fremstu fjórir og leikmennirnir þar fyrir aftan voru ekki nægilega öflugir að verjast fyrsta korterið í seinni. Það lagaðist aðeins eftir skiptingarnar.
„Það er ekkert stórslys að tapa 2:1 á útivelli. Himinn og jörð eru ekki að farast. Einvígið er enn galopið og það er allt undir,“ sagði Arnar.