Landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson sat fyrir svörum blaðamanna á Estadio Nueva Condomina-vellinum í Murcia í dag, þar sem Ísland og Kósóvó mætast í Þjóðadeild karla í fótbolta klukkan 17 á morgun.
Kósovó vann fyrri leikinn á sínum heimavelli, 2:1, og þarf Ísland því að vinna upp eins marks forskot til að halda sæti sínu í B-deildinni. Ein breyting hefur verið gerð á hópnum frá því í fyrri leiknum og er Jóhann Berg Guðmundsson kominn inn.
„Gaman að fá Jóa inn. Hann er reynslumikill og með gæði í löppunum og höfuðinu. Hann er klár í 90 mínútur og það kemur í ljós á morgun hversu margar mínútur hann fær,“ sagði Arnar.
Hann var ánægður með ansi margt í fyrri leiknum, þrátt fyrir að hann hafi tapast.
„Það hafa farið tveir sólahringar í að greina fyrri leikinn. Ég var mjög ánægður með þann leik miðað við að þetta var fyrsti leikur. Strákarnir gerðu allt sitt besta og voru hungraðir í að reyna nýja hluti.
Sumt gekk vel upp og annað ekki. Síðustu dagar hafa farið í það að laga það sem fór úrskeiðis, sem var ekkert stórt. Þetta eru litlir hlutir sem þarf að laga og 2:1 er engin heimsendir,“ sagði hann.
En mun Arnar breyta miklu fyrir seinni leikinn?
„Ég hef hingað til verið þekktur fyrir að vera óhræddur við að breyta liðinu og nýta mannskapinn. Við verðum með ferskar lappir á morgun og við reynum að spila þetta svipað. Við eigum samt að geta stigið fastar á bensíngjöfina í heimaleikjum og stýra leiknum betur.“
„Það eru allir heilir og nokkrir klárir í bátana. Auðvitað eru sumir klárari en aðrir en það hefur enginn sagt að hann geti ekki spilað,“ sagði Arnar.