Helgi Fróði Ingason, Stjörnumaðurinn uppaldi, hefur spilað vel með Helmond Sport í B-deild Hollands í fótbolta undanfarnar vikur. Hann var mikið á bekknum framan af tímabili en hefur verið í stóru hlutverki að undanförnu.
„Ég er búinn að bæta mig mjög mikið og sérstaklega síðustu mánuði. Nú er ég kominn í stórt hlutverk. Það er frábært,“ sagði hann og hélt áfram:
„Þetta er mjög fínt. Staðurinn er rólegur en á sama tíma stutt frá Eindhoven sem er gott. Fólkið í kringum félagið er mjög gott.
Þetta var mjög krefjandi fyrst en svo venst maður þessu. Maður venst að vera einn, elda sjálfur og redda sér. Ég er fáránlega öflugur í eldhúsinu,“ bætti Helgi léttur við í samtali við mbl.is.