Arnar mjög kröfuharður

Sverrir Ingi Ingason fórnar sér fyrir málstaðinn í fyrri leiknum.
Sverrir Ingi Ingason fórnar sér fyrir málstaðinn í fyrri leiknum. Ljósmynd/Alex Nicodim

Varnarmaðurinn Sverrir Ingi Ingason var nokkuð ánægður með fyrri leik Íslands gegn Kósovó í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar í fótbolta, þrátt fyrir að Kósovó hafi farið með 2:1-sigur af hólmi.

„Það voru margir hlutir sem við gerðum vel og aðrir hlutir sem við getum lagað. Það er eðlilegt, því við höfum ekki fengið mikinn tíma til að undirbúa okkur og með nýjan þjálfara.

Arnar setur miklar kröfur á okkur og það er eðlilegt að það séu hlutir sem við getum lagað eftir fyrsta leik en fyrri hálfleikurinn var góður hjá okkur. Í seinni vorum við að missa boltann á slæmum stöðum og hann var erfiðari,“ sagði Sverrir við mbl.is.

Seinni leikurinn fer fram í Murcia á Spáni klukkan 17 í dag og verður Ísland að vinna upp eins marks forskot til að halda sæti sínu í B-deildinni.

„Við ætlum að laga það sem þarf í seinni leiknum. Við lærum af fyrri leiknum og nýtum upplýsingarnar sem þjálfarinn hefur komið með.

Þetta hefur verið krefjandi og skemmtilegt. Við viljum vinna þetta einvígi en á sama tíma horfum við á þetta sem undirbúning fyrir næstu undankeppni. Þar eru stóru verðlaunin,“ sagði Sverrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert