Arnar Gunnlaugsson tók við sem landsliðsþjálfari karla í fótbolta í byrjun árs eftir að hann náði mögnuðum árangri með karlalið Víkings.
Hann stýrir landsliði í fyrsta skipti en hver er helsti munurinn á að stýra landsliði og félagsliði?
„Það eru miklu færri leikir. Ég er með fimm ár af upplýsingum í höfðinu á mér sem ég hef þurft að koma á framfæri á tveimur æfingum og nokkrum fundum.
Fundirnir hafa verið of langir stundum en ég náði að sleppa með 20 mínútna fund síðast. Maður er að læra inn á þetta,“ sagði Arnar á blaðamannafundi Íslands í gær og hélt áfram:
„Þetta er eins og jólatré. Við bætum við skreytingum hægt og rólega. Við erum komnir með smá grunn. Við bætum svo við krúsídúllum á hverjum einasta fundi og svo verðum við klárir í haust,“ sagði Arnar.