Aron Einar: Ber ábyrgð á því

Aron Einar Gunnarsson í stúkunni eftir að hafa fengið rautt …
Aron Einar Gunnarsson í stúkunni eftir að hafa fengið rautt spjald. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þetta er þungt,“ sagði reynsluboltinn Aron Einar Gunnarsson eftir tap Íslands fyrir Kósovó, 3:1, í umspili Þjóðadeildar Evrópu í knattspyrnu í Murciu í dag. 

Ísland tapaði einvíginu samanlagt 5:2 og mun leika í C-deild Þjóðadeildarinnar næst. 

Aron Einar kom inn á í hálfleik en fékk tvö gul spjöld á fyrstu 25 mínútum hálfleiks og þar að leiðandi rautt.  

„Við þurfum að bæta okkur á öllum sviðum, líka í einföldu hlutunum. Fyrsti bolti, seinni bolti.

Kósovó vann þetta sanngjarnt, við þurfum að átta okkur á því. 

Það eru tveir leikir í sumar þar sem við þurfum að slípa margt saman,“ sagði Aron Einar við mbl.is. 

Ósammála dómaranum

Aron var spurður út í gulu spjöldin og það rauða.

„Mér fannst lítið á þetta, ef vægt er til orða tekið.

Ég vinn boltann í fyrri og hann sparkar upp í löppina á mér og ég fæ gult spjald. Í seinna atvikinu togar hann í treyjuna mína og togar mig niður og lætur sig síðan detta. Það segir sig svolítið sjálft. 

Mér fannst þetta ósanngjarnt rautt spjald en ég kem mér í þessa aðstæðu. Ég fæ rautt spjald og skil strákana eftir tíu og ég þarf að bera ábyrgð á því. Þungt, svekkjandi og allt það en ég hef verið hérna áður.“ 

Hvað klikkaði hjá liðinu í kvöld?

„Við unnum ekki seinni bolta, við sem lið. Það eru ekki einhverjir einstaklingar. Allir keppast um að finna einn eða tvo til þess að hæla eða tala illa um. Þannig virkar það ekki hjá okkur.

Við sem lið þurfum að bæta þetta.“ 

Varstu svekktur að hafa ekki verið í byrjunarliðinu?

Nei, við vissum að það yrðu breytingar. Við höfum verið að prófa ýmislegt. Við erum með fullt af flinkum leikmönnum sem eru að berjast um sæti,“ bætti Aron Einar við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert