Auðvitað vil ég byrja

Stefán Teitur Þórðarson kom inn á í seinni hálfleik í …
Stefán Teitur Þórðarson kom inn á í seinni hálfleik í fyrri leiknum. Ljósmynd/Alex Nicodim

Stefán Teitur Þórðarson var sáttur við margt í fyrri leik Íslands og Kósovó í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar á fimmtudagskvöld, þrátt fyrir að Kósovó hafi unnið 2:1-sigur.

„Í fyrri hálfleik vorum við að útfæra marga góða hluti sem Arnar hefur komið með inn. Þeir breyttu svo taktískt í seinni hálfleik, við vorum staðir og það vantaði hlaup hjá okkur bak við til að finna holurnar sem við gerðum vel í fyrri hálfleik. Við þurfum að læra hratt og ekki gera stór mistök í næsta leik,“ sagði Stefán.

Stefán Teitur er Skagamaður, rétt eins og samherjarnir hans Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson og landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson.

„Maður hefur þekkt Ísak og Hákon síðan þeir voru krakkar og Arnar spilaði áður en ég fæddist. Maður veit hvaða merkingu hann hefur fyrir Skagamenn. Það er ekki verra að hafa nokkra Skagamenn í landsliðinu,“ sagði hann.

Stefán byrjaði á bekknum í fyrri leiknum og var svekktur.

„Já, 100 prósent. Ísak og Hákon stóðu sig frábærlega í fyrri hálfleik en auðvitað vil ég byrja og geri allt til þess. Ég mæti samt alltaf í landsliðið og hugsa um að liðið sé númer 1, 2 og 3 og ég er viss um að aðrir leikmenn hugsi það sama.

Það skilar okkur langt. Við þurfum allir að geta komið inn á og halda í það sem Arnar vill að við gerum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert