Erfitt að sjá Aron Einar svona

Aron Einar Gunnarsson fær rautt spjald.
Aron Einar Gunnarsson fær rautt spjald. Ljósmynd/Alex Nicodim

Lár­us Orri Sig­urðsson, fyrr­ver­andi leikmaður ís­lenska landsliðsins, átti erfitt með að ræða Aron Einar Gunnarsson í myndveri Stöðvar 2 Sport eftir tap Íslands fyrir Kósovó, 3:1, í Murcia á Spáni í dag. 

Kósovó vann báða leiki liðanna í umspili Þjóðadeildar Evrópu og mun Ísland spila í C-deildinni næst fyrir vikið.

Lárus Orri sagði að það hafði verið erfitt að sjá Aron Einar spila í kvöld en sá síðarnefndi fékk tvö gul spjöld í seinni hálfleik og þar með rautt.

„Þessi gluggi hjá Aroni var ekki góður. Hann var ekki góður í síðasta leik og ekki heldur í þessum. 

Mér finnst bara svolítið erfitt að tala um þetta hreinlega. Mér finnst erfitt að sjá Aron í þessari stöðu sem hann er í.

Oft og tíðum var þetta mjög erfitt fyrir hann, sérstaklega í seinni hálfleik í síðasta leik. Í þessum leik þá átti hann mjög erfitt uppdráttar. Hann var búinn að vera inn á í 15 mínútur og þá virtist hann vera gjörsamlega búinn á því.“

Gefur strákunum ráð 

Lárus Orri vill að leikmenn gullaldarliðs Íslands, sem komst á EM 2016 og HM 2018, sem eru enn að spila hugsi vel og vandlega hvenær skal gott látið heita.

„Ég segi það ekki bara við Aron, heldur alla gullaldarstrákana sem eru enn að spila. Passið ykkur á því að „leave the game before the game leaves you“. 

Þú hefur bara ákveðinn tíma til að ákveða hvenær þú hættir í landsliðinu því á endanum verður það bara ákveðið fyrir þig. 

Ég er Þórsari og hann er Þórsari, mér finnst vont að sjá átta mínútna viðtal við Aron þar sem hann er að réttlæta af hverju hann er í landsliðinu. Þetta er okkar fyrirliði með stóru F-i. 

Ef ég mætti gera einn hlut aftur á mínum ferli væri það að standa einn þjóðsöng, ég veit að þetta er rosalega erfitt. 

Ég held að það sé samt kominn tími til að menn horfi vel í spegilinn og taki ákvörðun með framtíðina,“ bætti Lárus Orri við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert