Þetta er bara glatað

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni.
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni. Ljósmynd/Alex Nicodim

Arnar Gunnlaugsson mátti þola skell fyrir Kósovó í fyrstu tveimur leikjum sínum sem þjálfari karlalandsliðsins í fótbolta. 

Ísland er dottið niður í C-deild Þjóðadeildar Evrópu eftir að hafa tapað sannfærandi fyrir Kósovó, 5:2, en seinni leikurinn fór fram í Murcia á Spáni í kvöld. 

„Það var vont að horfa á þetta. Við byrjuðum vel og maður hélt að það myndi gefa okkur góða innspýtingu. Síðan voru þeir bara miklu betri, ekkert flóknara en það. 

Þeir stigu fastar en við í alla bolta. Einföldu hlutirnir fóru forgörðum hjá okkur. Engar afsakanir frá mér, við töpuðum bara fyrir betra liði,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is eftir leik. 

Arnar breytti mikið til en hann gerði alls sex breytingar frá fyrri leiknum og þá spiluðu Ísak Bergmann Jóhannesson og Stefán Teitur Þórðarson í stöðum sem þeir hafa spilað í áður. 

Sérðu eftir þessu?

„Fer eftir því hvernig þú lítur á það. Auðvitað sér maður eftir því þar sem við töpuðum leiknum en það er betra að komast að ákveðnum hlutum núna frekar en í haust þegar alvaran byrjar.

Þetta er tímabil núna, þessir tveir leikir og næstu tveir. Ég er ekki að biðja ykkur um að vera þolinmóðir en ég bið leikmennina um það. 

Þeir verða að hafa trú á þessu og svo verðum við klárir í haust, ég hef alltaf sagt það.“

Hvernig metur þú þennan leik miðað við þann fyrri? 

„Seinni hálfleikur var allt í lagi, við byrjuðum af krafti og ég var ánægður með það. Við fengum síðan rautt spjald á okkur og þá var leikurinn búinn. Fyrri hálfleikurinn var hins vegar mikil vonbrigði. 

Þegar ég horfi til baka þá var leikurinn í Kósovó betri en ég hélt, margir góðir hlutir í honum. 

Margir góðir hlutir í honum og þess vegna var ég svekktur hvernig við tókumst á þeirri staðreynd að vera 1:0-yfir eftir mínútu, það gerist ekki betra. 

Við getum talað um taktík og tækni í allan dag en stundum þarf bara að bretta upp ermarnar.“

Breytir ekki öllu 

Aron Einar Gunnarsson fékk síðan rautt spjald á 70. mínútu eftir að hafa komið inn á í hálfleik en hann fékk tvö gul. Aron var mjög ósáttur við dóminn og tekur Arnar undir.

„Þetta var „absúrd.“ Ég hélt að gamli vinur minn VAR myndi bjarga mér og okkur. Maður sér þetta í hverjum einasta langa bolta, framherji og varnarmaður grípur hvor annan. 

Það breytir svo sem ekki öllu. Við óskum Kósovó til hamingju, þeir voru bara einfaldlega betri en við. 

Það þýðir ekki að kvarta og kveina í mögulegu ef og hefði ef það hefði ekki verið rautt spjald. Viljum ekki vera í einhverjum blekkingarleik, töpuðum einfaldlega fyrir betra liði.“

Mikil umræðu hefur verið um fáa kosti Íslands varnarlega en Arnar var spurður út í það. Hann nefndi leikmenn eins og Kára Árnason, Ragnar Sigurðsson og Sölva Geir Ottesen. 

Varð það sýnilegt að liðinu vanti varnarmenn? 

„Við erum ekki beint með varnarmenn eins og við vorum vanir í gamla daga eins og Kára, Ragga og Sölva, getum farið enn lengra. 

Það lið átti erfitt með að tengja saman tvær sendingar en vann á sterkum varnarleik, ótrúlegu hjarta og vilja og voru frábærir í því. 

Við erum ekki með það lið lengur. Við verðum að reyna nýja hluti og að halda boltanum aðeins betur. 

Að sama skapi verðum við samt að verjast. Þetta sem við sýndum í fyrri hálfleik var ekki boðlegt.“

Arnar var síðan ómyrkur í máli að lokum er hann var spurður út í það að Ísland væri fallið niður í C-deildina.

„Það er bara glatað, ekkert flóknara en það. Glatað að tapa og falla. Akkúrat núna þegar þú spyrð mig að þessu þá er ekkert jákvætt við það.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert