Fyrsta skipti í 60 ár

Stefán Teitur Þórðarson í leiknum við Kósovó á fimmtudagskvöld.
Stefán Teitur Þórðarson í leiknum við Kósovó á fimmtudagskvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Ég hef fundið mig meira og meira,“ sagði Stefán Teitur Þórðarson, landsliðsmaður í fótbolta, um tíma sinn hjá enska liðinu Preston til þessa en hann kom til félagsins frá Silkeborg í Danmörku fyrir tímabilið.

„Ég hef spilað aftar síðustu fjóra mánuði og hef nánast spilað allar mínútur síðan. Ég hef spilað mikið, spilað vel og liðið er á góðri leið. Við viljum halda þessu áfram. Það var smá erfitt að venjast því að spila tvisvar í viku eftir tímann í Danmörku, þegar það voru bara leikir á laugardögum.

Mér finnst þetta frábært núna. Við æfum ekki af mikilli ákefð heldur er þetta mjög taktískt. Líkaminn er búinn að venjast þessu og aðstaðan er frábær,“ sagði Stefán en leikið er afar þétt í B-deild Englands.

Næsti leikur hjá Preston er gegn Aston Villa í átta liða úrslitum enska bikarsins.

„Það er geggjað. Þetta er í fyrsta skipti í 60 ár sem Preston kemst í átta liða úrslit og maður finnur að allir innan félagsins eru mjög spenntir.

Við sem hópur erum spenntir að mæta Villa. Við slógum út Fulham í deildabikarnum en Villa er frábært lið og spilar í Meistaradeildinni,“ sagði Stefán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert