Ísak er góður og traustur vinur

Valgeir Lunddal Friðriksson kann vel við sig í Düsseldorf.
Valgeir Lunddal Friðriksson kann vel við sig í Düsseldorf. mbl.is/Eyþór

Valgeir Lunddal Friðriksson, landsliðsmaður í fótbolta, hefur átt gott fyrsta tímabil hjá Düsseldorf í Þýskalandi. Hann er ánægður með tímann sinn hjá félaginu hingað til.

„Þetta hefur verið mjög gott. Ég hef fengið traustið og byrjað flesta leiki. Ég er ánægður með traustið sem ég fæ frá þjálfurunum. Það er alls ekki sjálfgefið að fá að spila svona mikið á fyrsta tímabili í nýju landi,“ sagði Valgeir við mbl.is.

Ísak Bergmann Jóhannesson var fyrir hjá Düsseldorf og eru þeir því liðsfélagar.

„Ísak er góður og traustur vinur. Hann var búinn að vera þarna í eitt ár og kunni á félagið og borgina. Hann hjálpaði mikið. Vonandi missi ég hann ekki frá mér. Ef hann heldur áfram að spila svona vel fer hann örugglega í enn betra lið,“ sagði Valgeir.

Hann er mjög hrifinn af knattspyrnumenningunni í Þýskalandi, þar sem stemningin er mikil og gríðarleg vel mætt.

„Þetta er allt annað en ég er vanur. Ég spilaði fyrir framan 25.000 í Svíþjóð en þarna eru þeir enn fleiri, alltaf uppselt og mikil stemning. Þarna er maður mættur í einhverja klikkum og 50.000 manns á vellinum. Það er sturlað að spila fyrir framan svona,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert