Ísland er fallið niður í C-deild Þjóðadeildar karla í fótbolta eftir 3:1 gegn Kósovó í seinni leik liðanna í umspili um sæti í B-deildinni í kvöld en leikið var á Murcia á Spáni. Kósovó vann fyrri leikinn á heimavelli, 2:1, og einvígið því samanlagt 5:2.
Ísland byrjaði leikinn með glæsibrag því Orri Steinn Óskarsson skoraði strax á 2. mínútu er hann afgreiddi boltann í netið með glæsilegu skoti í fyrsta af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Alberti Guðmundssyni.
Amir Rrahmani átti fyrstu tilraun Kósovóa á 9. mínútu er hann skallaði að marki úr þröngu færi og boltinn beint í fangið á Hákoni Rafni Valdimarssyni í marki Íslands. Þremur mínútum síðar átti hann annan skalla úr teignum en aftur fór boltinn beint á Hákon.
Íslenska liðið komst í hann krappann á 16. mínútu er Ermal Krasniqi skaut hárfínt yfir úr fínu færi eftir mistök hjá vörninni og Hákoni. Íslenska liðið byrjaði flestar sóknir á stuttum sendingum frá markverði og varnarmönnum sem stundum bauð ákveðinni hættu heim.
Íslenska liðinu gekk illa að skapa sér opin færi í kjölfar marksins hjá Orra og voru færi Kósovóa mun fleiri á fyrsta hálftímanum en staðan þó enn 1:0.
Milot Rashica fékk gullið tækifæri til að jafna leikinn og koma Kósovó yfir í einvíginu þegar hann fékk frían skalla af stuttu færi í teignum á 31. mínútu en Hákon Rafn var vel staðsettur og gerði mjög vel í að verja.
Sókn Kósovó bar árangur á 35. mínútu er Vedat Muriqi var galopin í teignum og skoraði af öryggi af stuttu færi eftir sendingu frá vinstri. Var staðan þá 1:1 og 2:1 fyrir Kósovó samanlagt.
Kósovó hélt áfram að sækja og Ermal Krasniqi komst í fínt færi mínútu eftir markið en Hákon Rafn var vandanum vaxinn í markinu.
Ísland skapaði sér loksins færi á 40. mínútu er Willum Þór Willumsson skaut framhjá úr teignum eftir skyndisókn. Rúmri mínútu síðar skallaði Willum rétt framhjá eigin marki eftir enn eina sókn Kósovó. Amir Rrahmani skaut rétt framhjá úr horninu sem Kósovó fékk í kjölfarið.
Kósovó hélt áfram að sækja og vera mun sterkari aðilinn í leiknum og það skilaði sér í öðru markinu í blálok fyrri hálfleiks er Muriqi slapp í gegn og potaði boltanum framhjá Hákoni í markið.
Var staðan í hálfleik því 2:1 Kósovó í vil og 3:1 í einvíginu og útlitið svart fyrir íslenska liðið.
Ísland byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega og Þórir Jóhann Helgason átti hættulegt skot á 53. mínútu. Boltinn stefndi í hornið en Amir Saipi í marki Kósovó varði vel.
Albert skaut síðan yfir úr aukaspyrnu af 30 metra færi eða svo á 62. mínútu og gekk íslenska liðinu illa að skapa sér góð færi.
Vont varð síðan verra á 69. mínútu er Aron Einar Gunnarsson, sem kom inn á fyrir seinni hálfleikinn, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt er hann tók Muriqi niður á miðsvæðinu þegar sóknarmaðurinn var að komast í góða stöðu.
Staðan versnaði síðan enn á 79. mínútu þegar Muriqi skoraði sitt þriðja mark og þriðja mark Kósovó er hann kom boltanum í netið af stuttu færi þegar íslenska liðinu mistókst að koma boltanum í burtu eftir hornspyrnu.
Leikurinn var í raun búinn eftir þriðja markið og fjaraði hann út í kjölfarið.