Þórir Jóhann Helgason, landsliðsmaður í fótbolta, er byrjaður að leika með félagsliði sínu Lecce í ítölsku A-deildinni en hann fékk fá tækifæri með liðinu framan af tímabili.
Á undanförnum vikum eru tækifærin mun fleiri og hefur Þórir spilað vel.
„Þetta er meira upp núna miðað við hvernig þetta var eftir að ég kom til baka úr láni í Þýskalandi. Þá var mér tilkynnt að ég væri ekki í hópnum í deildinni og mætti ekki einu sinni vera á bekknum, þótt ég væri með á æfingum.
Síðan kemur nýr þjálfari, ég stend mig vel á æfingum og byrja að fá tækifæri. Ég nýtti þau tækifæri og hef spilað 12-13 leiki síðan og ég er mjög sáttur við það,“ sagði Þórir í samtali við mbl.is.
Lecce er þremur stigum fyrir ofan fallsæti í ítölsku A-deildinni og því í fallbaráttu.
„Við erum dansandi á línunni og það er krefjandi. Það er pressa frá stuðningsmönnum og félaginu. Við viljum vera áfram í A-deildinni.
Það yrði þá í fyrsta skipti í sögunni sem Lecce verður í þrjú ár í röð í efstu deild og það yrði mikið afrek. Við ætlum að gefa allt í þetta í lokin,“ sagði Þórir.
Hann kann ágætlega við lífið í Lecce á Suður-Ítalíu.
„Þetta er mjög fínt. Það er leiðinlegt að ferðast þangað þar sem þetta er neðst niðri á Ítalíu. Það er gott að búa þarna og góður matur og þetta er voðalega fínt,“ sagði hann.