„Framkvæmdaáætlunin hjá okkur miðar við það að 10. maí sé fyrsti heimaleikur á KR-vellinum. Það er sem sagt þriðji heimaleikurinn okkar,“ sagði Magnús Orri Schram, formaður knattspyrnudeildar KR, um stöðuna á framkvæmdum á Meistaravöllum.
KR vinnur um þessar mundir að því að skipta um undirlag á Meistaravöllum þar sem gervigras verður lagt í stað grassins sem áður var. KR mun leika fyrstu tvo heimaleiki sína í Bestu deildinni á komandi tímabili á heimavelli Þróttar úr Reykjavík í Laugardal, á gervigrasi.
Fyrsti eiginlegi heimaleikurinn í Vesturbæ á tímabilinu verður því gegn nýliðum ÍBV 10. maí. Upphafleg áætlun miðaði við að fyrsti heimaleikurinn yrði 27. apríl gegn ÍA en nú er ljóst að af því verður ekki.
Í stuttu samtali við mbl.is sagði Magnús Orri að framkvæmdum miðaði vel.
„Þessu miðar mjög vel. Við erum mjög ánægð með gang mála núna. Tíðin er góð þannig að þetta lítur bara vel út. Það er mikil tilhlökkun innan félagsins að fara að spila á endurbættum velli.
Það hlakka allir mikið til að fá betri aðstöðu fyrir alla okkar flokka. Það er mikil tilhlökkun fyrir því að fara að spila vestur í bæ en það verður ekki fyrr en 10. maí.“