Ísland vann stórsigur á Skotlandi, 6:1, þegar þjóðirnar mættust í vináttulandsleik 21-árs landsliða karla í knattspyrnu á Pinatar Arena í Murcia á Spáni í dag.
Íslenska liðið gerði því góða ferð til Spánar því í fyrri leik hennar vann það sannfærandi sigur á Ungverjum, 3:0. Liðið býr sig með þessu undir undankeppni Evrópumótsins sem hefst í haust.
Benoný Breki Andrésson kom Íslandi yfir á 24. mínútu eftir sendingu Hauks Andra Haraldssonar í gegnum vörn Skota.
Haukur var aftur á ferðinni á 40. mínútu þegar hann fékk sendingu inn í vítateiginn hægra megin frá Adolf Daða Birgisson og renndi boltanum út á Eggert Aron Guðmundsson sem hamraði hann í netið, 2:0.
Og á lokamínútu fyrri hálfleiks skoraði Benoný Breki sitt annað mark eftir hornspyrnu Jóhannesar Kristins Bjarnasonar frá hægri, 3:0.
Skotar minnkuðu muninn í 3:1 í byrjun síðari hálfleiks með marki frá Ryan One en Haukur Andri var enn á ferð á 58. mínútu þegar hann kom íslenska liðinu í 4:1 eftir sendingu frá Benoný Breka sem var þar með líka kominn með stoðsendingu.
Ekki skánaði staða Skotanna á 74. mínútu þegar þeir misstu Finlay Pollock af velli með rautt spjald.
Íslenska liðið nýtti liðsmuninn vel strax á 78. mínútu þegar Dagur Örn Fjeldsted sendi fyrir markið frá hægri eftir skyndisókn og Hilmir Rafn Mikaelsson skoraði af markteig, 5:1.
Þremur mínútum síðar spilaði íslenska liðið skosku vörnina sundur og saman og Helgi Fróði Ingason renndi boltanum á Jóhannes Kristin sem renndi honum í netið frá vítateig, 6:1.
Lið Íslands: Halldór Snær Georgsson (Arnar Freyr Jóhannesson 61.) – Jóhannes Kristinn Bjarnason (Hlynur Freyr Karlsson 83.), Ásgeir Helgi Orrason (Baldvin Þór Berndsen 61.), Logi Hrafn Róbertsson, Daníel Freyr Kristjánsson (Baldur Kári Helgason 83.) – Haukur Andri Haraldsson (Helgi Fróði Ingason 71.), Adolf Daði Birgisson (Dagur Örn Fjeldsted 61.), Eggert Aron Guðmundsson (Guðmundur Baldvin Nökkvason 61.), Róbert Frosti Þorkelsson – Hinrik Harðarson (Ágúst Orri Þorsteinsson 71.), Benoný Breki Andrésson (Hilmir Rafn Mikaelsson 71.)