Knattspyrnukonan Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir, leikmaður Víkings úr Reykjavík, er að ganga til liðs við sænska félagið Elfsborg. Kærasti hennar, Ari Sigurpálsson, var í síðustu viku seldur frá Víkingi til Elfsborg.
Svanhildur Ylfa er 21 árs og að baki 25 leiki í efstu deild, 15 fyrir Víking á síðasta tímabili og tíu fyrir HK/Víking sumarið 2019, þegar hún skoraði eitt mark. Alls hefur hún leikið 85 leiki í tveimur efstu deildunum.
Kvennalið Elfsborg leikur í sænsku B-deildinni þar sem það er nýliði og hefur leik gegn Umeå í næsta mánuði, 13. apríl nánar tiltekið.
„Knattspyrnudeild Víkings óskar Svanhildi velgengni og hamingju í Svíþjóð og um leið þökkum við henni kærlega fyrir sitt framlag til félagsins. Sjáumst fljótlega í Hamingjunni Svanhildur!“ segir meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild Víkings.