Fulltrúi UEFA skoðaði aðstæður í Grindavík

Aðstæður skoðaðar í Grindavík.
Aðstæður skoðaðar í Grindavík. Ljósmynd/KSÍ

UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, sendi Svisslendinginn Thierry Favre til Grindavíkur á dögunum til að skoða aðstæður hjá knattspyrnufélagi bæjarins.

Tilgangur heimsóknarinnar var að gefa fulltrúa UEFA kost á að kynna sér aðstæður þar sem KSÍ mun, fyrir hönd knattspyrnudeildar Grindavíkur, sækja um styrk í sérstakan hamfarasjóð UEFA.

Greindi KSÍ frá á heimasíðu sinni. Favre skoðaði m.a. knattspyrnuhúsið Hópið, ásamt Þorvaldi Örlygssyni formanni KSÍ, en það hefur orðið fyrir miklum skemmdum.

Karla- og kvennalið Grindavíkur léku heimaleiki sína í Safamýri á síðasta ári. Kvennalið Grindavíkur og Njarðvíkur mæta til leiks með sameiginlegt lið í 1. deild kvenna í ár og leika í Njarðvík.

Heimaleikir karlaliðsins eru enn skráðir í Grindavík og er fyrsti heimaleikur liðsins í 1. deildinni gegn Fjölni 9. maí næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert