Breiðablik er meistari meistaranna eftir sannfærandi 3:1-sigur gegn bikarmeisturum KA á Kópavogsvelli í dag.
KA-menn fengu fyrsta færi leiksins. Viðar Örn Kjartansson slapp einn í gegn eftir langan bolta upp völlinn en Anton Ari Einarsson, markvörður Breiðabliks, sá við honum.
Í kjölfarið tók við rólegur kafli þar sem Breiðablik var meira með boltann. Daninn Tobias Thomsen fékk nokkur álitleg færi en náði ekki að koma boltanum í netið.
Breiðablik tók forystuna á 31. mínútu. Það kom eftir fyrirgjöf frá Valgeiri Valgeirssyni sem rataði á Hans Viktor Guðmundsson, varnarmann KA, sem skallaði boltann inn í sitt eigið net, sjálfsmark.
Aðeins tveimur mínútum síðar braut Ívar Örn Árnason á Valgeiri inni í teignum og benti Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, á punktinn. Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson fór á punktinn og skoraði af öryggi, 2:0.
Tobias Thomsen skoraði síðan þriðja mark Blika á 40. mínútu. Óli Valur Ómarsson átti góða fyrirgjöf á Thomsen sem stangaði boltann í netið.
Staðan í hálfleik var því 3:0 fyrir Breiðabliki.
Breiðablik byrjaði síðari hálfleikinn af krafti en Kristinn Steindórsson og Óli Valur fengu góð færi til að bæta við fjórða markinu.
Blikar héldu áfram að ógna. Um miðbik seinni hálfleiks slapp Óli Valur einn í gegn en Steinþór Már Auðunsson, markvörður KA, varði frá honum. Boltinn datt þá fyrir Thomsen sem átti skot í varnarmann og þaðan aftur fyrir.
Ásgeir Sigurgeirsson skoraði sárabótarmark fyrir KA á 83. mínútu. Jakob Snær Árnason átti fyrirgjöf á Ásgeir sem náði góðum skalla en Anton Ari varði. Ásgeir var hins vegar fyrstur á frákastið og skoraði.
Fleiri urðu mörkin ekki og fagnaði Breiðablik 3:1-sigri í leikslok.