„Fannst ekki gefa rétta mynd á leiknum“

Hallgrímur Jónasson.
Hallgrímur Jónasson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Sanngjarn sigur hjá Breiðabliki, sumt gott og sumt sem þarf að laga,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, í viðtali við mbl.is eftir 3:1-tap sinna manna gegn Breiðablik í Meistarakeppni karla í knattspyrnu í dag.

„Mér fannst ekki gefa rétta mynd á leiknum að þeir hafi verið 3:0-yfir í hálfleik þegar við erum tvisvar búnir að komast einir í gegn, skorum sjálfsmark eftir horn og fáum á okkur óþarfa víti,“ sagði Hallgrímur í samtali við mbl.is.

Breiðablik var með 3:0-forystu í hálfleik eftir þrjú mörk á tíu mínútna kafla.

„Ánægður að við sköpuðum færi og gátum skorað mörg mörk í dag. Ég var ánægður með svarið í seinni hálfleik en mér fannst við of passívirí fyrri hálfleik. Við vildum leyfa þeim að vera meira með boltann en mér fannst við ekki nógu grimmir og vinna hann nógu oft í fyrri hálfleik.

Þrátt fyrir það þá klúðrum við einn á móti markmanni og erum teknir niður einir í gegn í fyrri hálfleik. Þannig við sköpuðum færi.

Í seinni hálfleik löguðum við þetta aðeins. Stigum aðeins meira á þá og unnum fullt af boltum, skoruðum mark og hefðum getað skorað fleiri,“ bætti Hallgrímur við.

Þið fenguð mikið af færum á ykkur eftir klaufagang í uppspili. Hvað hefði getað farið betur þar?

„Aðstæður voru ekki frábærar og við vorum kannski ekki alveg að leysa þetta rétt. Það vita allir að Blikar eru grimmir maður á mann alls staðar á vellinum.

Við töluðum um það í hálfleik hvernig við gætum leyst það betur og við þurftum að fara upp um einn, tvo takta til að geta spilað framhjá þeim,“ sagði Hallgrímur.

Það vantaði eitthvað í hópinn hjá þér í dag, eruð þið langt frá ykkar besta liði?

„Nei, það er alveg klárt mál að það eru nokkur meiðsli. Hallgrímur [Mar Steingrímsson] er að koma inn á núna, hann hefur ekki verið með okkur í svolítinn tíma. Jóan [Símon Edmundsson] sem við vorum að sækja nefbrotnaði í síðasta leik og við erum með annan nefbrotinn og einn var tekinn í hnéð í síðasta leik. 

Þannig að já okkur vantar aðeins en það breytir því ekki að við vorum með sterkt lið inn á vellinum í dag. Ungur strákur sem fékk sénsinn var mjög jákvæður punktur, hann Markús [Máni Pétursson],“ sagði Hallgrímur.

KA fær KR-inga í heimsókn í fyrstu umferð Bestu deildarinnar.

„Það sem við þurfum að gera betur, það munum við skoða núna og vera klárir á móti KR. Ég reikna með að jafnvel einhverjir leikmenn komi inn,“ sagði Hallgrímur að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka