„Þetta var andleg áskorun“

Halldór Árnason.
Halldór Árnason. mbl.is/Ólafur Árdal

Breiðablik er meistari meistaranna eftir 3:1-sigur gegn KA í dag. Halldór Árnason var að vonum ánægður er hann mætti í viðtal við mbl.is eftir leik.

„Það var titill sem fygldi sigrinum og sigurinn var afleiðing af frammistöðunni sem var virkilega góð og það er það mikilvægasta,“ sagði Halldór í samtali við mbl.is eftir leik.

Það voru ekki bestu aðstæður fyrir fótbolta í dag en það var bæði mjög hvasst og mikil rigning sem hafði áhrif á leikinn.

„Þetta var andleg áskorun við mjög erfiðar aðstæður á köflum og mér fannst menn gera vel, spila góðan fótbolta við erfiðar aðstæður og virkilega öflug frammistaða bæði varnar og sóknarlega sem tryggði góðan sigur.“

Hvað fannst þér um frammistöðuna, hefði eitthvað mátt fara betur?

„Við sköpum okkur miklu, miklu fleiri færi í seinni hálfleik en í fyrri þótt við skorum ekki í seinni. Hefði kannski viljað sjá menn aðeins betri í færunum. 

Við þurftum síðan að standa af okkur storm síðustu mínúturnar, bæði líkamlega og andlega. Þeir herjuðu aðeins á okkur eftir að þeir settu í 3:1 og voru með ömurlegan storm og haglél í andlitið.

Miðað við yfirburðina í leiknum fannst mér óþarfi að þeir væru að hóta einhverju en það er kannski fullkomnunaráráttan í mér að tala um það. Þetta var góður sigur og góður leikur.“

Tobias Thomsen, Óli Valur Ómarsson, Valgeir Valgeirsson og Anton Logi Lúðvíksson voru allir í byrjunarliði Breiðabliks en þeir gengu allir til liðs við félagið í vetur. Thomsen skoraði mark sem var lagt upp af Óla Val og Valgeir fiskaði vítaspyrnu í leiknum. Halldór var ánægður með frammistöðu nýju mannanna.

„Allir komið virkilega vel inn í þetta. Ég er mjög ánægður með þá alla, þeir hafa passað ótrúlega vel inn. Tobias hefur verið skemmst hjá okkur en hefur aðlagast vel á stuttum tíma og var mjög góður í dag,“ sagði Halldór.

Breiðablik fær Aftureldingu í heimsókn í opnunarleik Bestu deildarinnar næsta laugardag. Leikurinn leggst vel í Halldór.

„Hann leggst frábærlega í mig. Alltaf spennandi að spila fyrsta leik í deildinni og kveikja almennilega á þessu. Við vitum það að Afturelding mun koma mjög gírað, bæði í stúkunni og inni á vellinum. Fyrsti leikur hjá félaginu í efstu deild svo þeir munu mæta mjög hungraðir og gíraðir svo það er eins gott að við tökum þá mjög alvarlega,“ sagði Halldór að lokum.

Fagnaðarlæti í leikslok.
Fagnaðarlæti í leikslok. mbl.is/Hakon Palsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka