Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir tekur ekki þátt í komandi leikjum liðsins gegn Noregi og Sviss í Þjóðadeildinni í fótbolta.
Þetta tilkynnti Knattspyrnusamband Íslands á samfélagsmiðlum sínum en Glódís Perla, sem er 29 ára gömul, er að glíma við meiðsli.
Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, hefur verið kölluð inn í hópinn í hennar stað en hún á að baki 54 A-landsleiki.
Ísland mætir Noregi þann 4. apríl og svo Sviss fjórum dögum síðar, þann 8. apríl, en báðir leikirnir fara fram á heimavelli Þróttar úr Reykjavík á gervigrasvellinum í Laugardal.
Ísland er með 1 stig í þriðja og næstneðsta sæti riðilsins eftir fyrstu tvær umferðirnar og þarf því nauðsynlega á sigri að halda í leikunum tveimur.
Fjarvera Glódísar er mikið högg fyrir íslenska liðsins en hún er langleikjahæst í hópnum með 134 A-landsleiki og hefur aðeins misst af einum mótsleik með landsliðinu frá árinu 2013.