„Það er búið að vera mjög gaman,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir, landsliðskona í fótbolta, í samtali við mbl.is um fyrstu vikurnar hjá Kristianstad í Svíþjóð en hún kom til félagsins frá Fiorentina á Ítalíu á dögunum.
Katla Tryggvadóttir og Guðný Árnadóttir voru hjá Kristianstad fyrir og hafa margir Íslendingar spilað fyrir félagið. Þá þjálfaði Elísabet Gunnarsdóttir liðið lengi.
„Þetta er svolítið eins og að vera heima. Þetta er lítið, þægilegt og maður getur labbað út um allt. Það er mikil fjölskyldustemning þarna.
Ég vissi nokkurn veginn hvað ég var að fara út í, í Svíþjóð. Það voru tveir Íslendingar fyrir og þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Það eru Íslendingar úti um allt. Við erum með Tinnu sjúkraþjálfara og hennar fjölskyldu.
Svo eru Íslendingar í handboltaliðinu líka. Það er allt morandi í Íslendingum þarna. Ég er ekki vön því síðan ég fór út, svo þetta er skemmtilegt,“ sagði hún.
Alexandra fer vel af stað í nýju liði en hún er með eitt mark og eina stoðsendingu í tveimur fyrstu umferðunum. Liðið er með þrjú stig eftir leikina tvo. Alexandra skoraði annað markið í 2:0-heimasigri á Häcken í síðustu umferð, eftir sendingu frá Guðnýju.
„Ég er mjög sátt. Það var svekkjandi samt að fá ekki meira út úr fyrsta leiknum en það voru góð úrslit í síðasta leik. Þetta var alvöru Íslendingamark, sem skemmdi ekki fyrir.“
Fram undan hjá Alexöndru og landsliðinu eru heimaleikir við Noreg og Sviss í Þjóðadeildinni. Ísland er með eitt stig eftir tvo leiki en liðið tapaði fyrir Frakklandi og gerði jafntefli við Sviss á útivelli í febrúar.
„Mér líst mjög vel á þessa landsleiki. Það er langt síðan við spiluðum á Íslandi og það gerist ekki oft í apríl. Ég er mjög spennt, þótt það sé missir af Glódísi. Við fáum alvöru karakter inn í staðinn. Elísa Viðarsdóttir er enginn nýgræðingur,“ sagði Alexandra.