„Lífið á Englandi snýst svo sannarlega um fótbolta, hjá mér og eiginlega öllum á Englandi,“ sagði Hlín Eiríksdóttir, landsliðskona í fótbolta, í samtali við mbl.is. Hlín skipti yfir til Leicester í ensku úrvalsdeildinni frá Kristianstad í Svíþjóð í janúarlok.
„Það er magnað að upplifa þetta. Þetta er búið að vera gott hingað til en á sama tíma öðruvísi en ég er vön,“ sagði Hlín og hélt áfram:
„Þetta er áskorun innan og utan vallar. Það er meiri menningarmunur að fara til Englands heldur en það var að fara til Svíþjóðar. Deildin er svo ógeðslega sterk og það tekur tíma að venjast því.“
En hverju hefur hún helst þurft að venjast utan vallar?
„Mér finnst hugarfar fólks aðeins öðruvísi á Englandi,“ sagði Hlín. En hvað með matarmenninguna frægu á Englandi? „Mér finnst ekkert geggjað að borða bakaðar baunir á hverjum degi,“ sagði Hlín og hló.
„Maturinn er ekkert sérstaklega spennandi en veðrið hefur komið mér á óvart. Það voru margir að vara mig við rigningu og leiðinlegu veðri en svo hefur það verið gott,“ sagði hún.
Hlín á ekki í erfiðleikum með að skilja fólk í Leicester, þar sem enski hreimurinn er þægilegri en víða annars staðar. „Það er léttara að skilja fólk í Leicester en í Liverpool t.d. Ég hef ekki átt í tungumálaörðugleikum hingað til.“
Hún er ánægð með sitt eigið gengi innan vallar til þessa en hún hefur leikið fjóra leiki í ensku úrvalsdeildinni hingað til.
„Það hefur gengið vel. Ég fékk traustið um leið og ég kom en svo lenti ég í meiðslum sem ég er að vinna mig út úr. Nú þarf ég að berjast fyrir sætinu mínu aftur, sem er geggjuð áskorun. Ég vildi meiri samkeppni og þess vegna skipti ég til Leicester.
Það eru fleiri gæðaleikmenn hjá Leicester. Þar er 25 manna hópur og allir atvinnumenn. Hjá Kristianstad er hópurinn þynnri og mikill munur er á aðstæðum og utanumhaldi. Kristianstad er samt mjög gott lið og ég elskaði að vera þar og gat alveg séð mig vera áfram þar. Umgjörðin er hins vegar stærri og betri hér,“ sagði Hlín.