Víkingur úr Reykjavík verður án nokkurra leikmanna þegar liðið hefur leik í Bestu deild karla í knattspyrnu með heimaleik gegn nýliðum ÍBV á mánudagskvöld.
Jón Guðni Fjóluson, Róbert Orri Þorkelsson, Nikolaj Hansen og Pablo Punyed eru allir frá vegna meiðsla.
„Staðan er ágæt. Það eru flestir leikfærir. Jón Guðni er að glíma við erfið meiðsli í hnjánum. Það er svona óvissa með hann. Róbert Orri er allur að koma til og verður sennilega með í mestöllu á æfingu á eftir.
Það vantar vissulega upp á leikformið þannig að það verður að gefa honum tíma til að koma rólega til baka. Þetta eru leiðinleg meiðsli, endurtekin meiðsli sem hann er að lenda í aftan í læri. Við verðum að fara varlega með hann, passa upp á hann,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, í samtali við mbl.is.
Pablo er að jafna sig á krossbandsslitum í hné.
„Niko fór aftan í læri í leik í daginn. Hann er byrjaður að skokka og sparka í bolta. Það styttist í hann. Pablo Punyed, það gengur rosalega vel í endurhæfingunni hans.
Hann er á svolítið skrítnum stað núna þar sem honum líður örugglega eins og hann geti gert meira en fær ekki að gera meira. Annars eru strákarnir í toppstandi.
Við erum búnir að taka gott undirbúningstímabil og erum mjög sáttir við hvar við stöndum núna með liðið,“ bætti Sölvi Geir við.