Knattspyrnumaðurinn Jón Guðni Fjóluson hefur lagt skóna á hilluna vegna meiðsla en hann lék með Víkingi í Reykjavík á síðasta tímabili.
Jón Guðni kom til Víkings fyrir síðasta tímabil eftir að hafa verið frá keppni í um tvö ár vegna meiðsla. Þrátt fyrir það lék hann 17 leiki með Víkingum í Bestu deildinni og 15 leiki í Evrópukeppni.
Átti hann sinn þátt í að Víkingur var hársbreidd frá sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar.
Jón Guðni, sem er 35 ára, hóf meistaraflokksferilinn með Fram árið 2007. Hann lék erlendis frá 2011 til 2024 með Beerschot í Belgíu, Sundsvall, Norrköping og Hammarby í Svíþjóð, Krasnodar í Rússlandi og Brann í Noregi.
Hann lék 18 A-landsleiki á ferlinum og skoraði í þeim eitt mark, í vináttuleik gegn Perú árið 2018.