Víkingar verða Íslandsmeistarar 2025 eftir baráttu við Breiðablik, Valur hefur betur í slag við KR um þriðja sætið, ÍA kemst í efri hlutann á kostnað FH og Afturelding heldur sæti sínu í Bestu deildinni á kostnað ÍBV og Vestra.
Þetta er heildarniðurstaðan úr hinni árlegu spá íþróttadeildar Morgunblaðsins og mbl.is fyrir Bestu deild karla í knattspyrnu en fyrsti leikurinn á nýju tímabili fer fram á Kópavogsvelli á laugardagskvöldið kemur, 5. apríl, þegar Íslandsmeistarar Breiðabliks fá nýliða Aftureldingar í heimsókn.
Í spánni í ár tóku þátt 28 manns, öll þau sem fjalla um leikina í deildinni fyrir miðla Árvakurs ásamt knattspyrnuáhugafólki á ritstjórninni. Hver og einn raðaði liðunum í sæti eitt til tólf og efsta liðið fær 12 stig, næsta lið 11 og svo koll af kolli.
1 VÍKINGUR nær meistaratitlinum úr höndum Breiðabliks samkvæmt spánni en liðið fékk 322 stig samtals. Alls spáðu 19 af 28 Víkingum efsta sætinu á meðan fjórir töldu að þeir yrðu ekki í öðru tveggja efstu sætanna.
2 BREIÐABLIK fékk 313 stig í öðru sæti en sjö spáðu Kópavogsliðinu meistaratitlinum og aðeins tveir töldu að Blikarnir yrðu ekki annað tveggja efstu liðanna.
3 VALUR fékk 268 stig í þriðja sæti en tveir spáðu Hlíðarendaliðinu sigri í deildinni og aðrir tveir spáðu því öðru sæti. Flestir settu Val í þriðja eða fjórða sæti og enginn neðar en í fimmta sæti.
Spána og umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.