Áþreifanleg spenna hjá öllum

Aron Elí Sævarsson fagnar vel og innilega eftir að Afturelding …
Aron Elí Sævarsson fagnar vel og innilega eftir að Afturelding tryggði sér sæti í efstu deild. mbl.is/Ólafur Árdal

Aron Elí Sævarsson, fyrirliði Aftureldingar í fótbolta, er spenntur fyrir fyrsta tímabili liðsins frá upphafi í efstu deild. Afturelding vann Keflavík í úrslitum umspilsins í 1. deildinni á síðasta ári og tryggði sér sæti í deild þeirra bestu.

„Það er áþreifanleg spenna hjá öllum og sérstaklega hjá öllum í liðinu og fólkinu í kringum liðið. Maður hefur svo tekið eftir meiri spennu í bæjarfélaginu og hjá stuðningsmönnum undanfarnar vikur. Herrakvöldið gekk vel og auglýsingarnar hafa gert Mosfellinga spennta,“ sagði hann við mbl.is.

Eins og hjá flestum nýliðum er fyrsta markmið að halda sætinu í deildinni en Aftureldingu er spáð neðstu sætum deildarinnar hjá flestum spámönnum fyrir tímabilið.

„Við höfum ekki opinberlega gefið út markmið fyrir þetta tímabil en það er klárlega markmiðið að halda okkur í deildinni. Við sjáum svo til hvernig byrjunin verður og reynum að byggja ofan á henni.

Við ættum ekki að finna fyrir neinni pressu og því skiptir litlu máli hvort okkur sé spáð falli einhvers staðar eða ekki. Okkur verður eflaust spáð neðstu sætunum í öllum spám. Við spáum lítið í spánni og sjáum hvernig okkur gengur að spila á móti þessum bestu liðum,“ sagði hann.

Afturelding hafnaði í 10. sæti í spá Morgunblaðsins sem birt var í miðvikudagsblaðinu. Afturelding mætir Íslandsmeisturum Breiðabliks í sínum fyrsta leik í efstu deild frá upphafi á Kópavogsvelli á laugardagskvöldið klukkan 19.15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert