„Ég er mjög spennt fyrir þessu,“ sagði hin enska Gemma Grainger, þjálfari norska kvennalandsliðsins, fyrir leikinn gegn Íslandi í A-deild Þjóðadeildarinnar á Þróttarvelli á morgun.
Fyrir leikinn er Ísland í þriðja sæti riðilsins með eitt stig en Noregur er í öðru sæti með þrjú.
Nokkuð er um skakkaföll hjá báðum liðum en fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir er fjarverandi líkt og Selma Sól Magnúsdóttir og Diljá Ýr Zomers. Hjá Noregi eru stjarnan Caroline Graham Hansen, Guro Reiten og Maren Mjelde fjarverandi.
Grainger er spennt fyrir leiknum gegn Íslandi á morgun og telur að verkefni verið erfitt. Hún talaði einnig vel um Þorstein Halldórsson en þau mættust þrisvar meðan Graigner stýrði Wales, Ísland vann tvo leiki og sá þriðji endaði með jafntefli.
„Ég ber miklu virðingu fyrir Íslandi. Ég hef mætt Þorsteini nokkrum sinnum og ber mikla virðingu fyrir honum.
Hann hefur byggt upp lið sem veit hverjir styrkleikar þess eru. Ísland spilar sinn bolta mjög vel og það er erfitt að mæta liðinu vegna styrks þess.
Við verðum að sýna hvað í okkur býr og þannig spilum við sem best, þar er einbeitingin,“ sagði Graigner.