„Þetta tímabil leggst prýðilega í okkur,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði knattspyrnuliðs Breiðabliks, í samtali við mbl.is um komandi Íslandsmót sem hefst á laugardag með leik Breiðabliks og nýliða Aftureldingar á Kópavogsvelli.
„Það er tilhlökkun, það er orðið sem fangar stemninguna hjá okkur um þessar mundir. Ég skynja hungur í mönnum og að þeir séu vel innstilltir fyrir vonandi skemmtilegt mót,“ bætti leikmaðurinn fjölhæfi við.
En er erfiðara að koma inn í tímabil sem ríkjandi meistari?
„Þú getur gert það erfiðara fyrir þig í kollinum. Það getur verið huglæg hindrun. Það hjálpar að búa að reynslu að hafa áður farið inn í tímabil sem Íslandsmeistari. Það er ekki oft sem lið vinna tvö ár í röð.
Það er engin tilviljun og við verðum að viðurkenna það fyrir sjálfum okkur að þetta verður drulluerfitt. Liðin mæta eflaust enn stemmdari í að reyna að sigra ríkjandi Íslandsmeistara. Við erum klárir í þá áskorun og drifnir áfram að ná áfanga sem gerist ekki oft,“ sagði Höskuldur.
Breiðablik hafnaði í 2. sæti í spá Morgunblaðsins sem birt var í miðvikudagsblaðinu. Breiðablik mætir nýliðum Aftureldingar í upphafsleik Bestu deildarinnar á laugardagskvöldið klukkan 19.15 á Kópavogsvelli.