Komið að leiðarlokum ef það gengur ekki

Rúnar Már Sigurjónsson í leik með ÍA á síðasta tímabili.
Rúnar Már Sigurjónsson í leik með ÍA á síðasta tímabili. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Rúnar Már Sigurjónsson, fyrirliði ÍA í knattspyrnu, bindur vonir við að mikil meiðslavandræði á síðasta ári séu loks að baki og að hann geti gert sig gildandi á komandi tímabili.

Hann sneri aftur til Íslands á síðasta tímabili eftir 11 ára dvöl í atvinnumennsku og gekk til liðs við Skagamenn en náði aðeins að spila tíu leiki í Bestu deildinni.

„Ég var í aðgerð í október sem tekur einhverja mánuði að jafna sig á. Ég hafði ágætis tíma núna. Ég fór fyrst í aðgerð í janúar í fyrra og kom þá inn þegar mótið var að byrja. Núna er ég að koma inn alveg tveimur mánuðum fyrr þannig að standið er bara gott.

Ég er búinn að æfa með liðinu frá því í febrúar og hef ekki misst úr æfingu síðan. Ég er búinn að spila fjóra til fimm leiki og loksins 90 mínútur í síðasta leik. Eins og er er ég í mjög góðu standi og líður bara vel.

Sem er mjög frábrugðið síðasta tímabili þar sem ég var í raun í tómu brasi með líkamann á mér allt árið. Það er önnur saga núna, sem er flott,“ sagði Rúnar Már í samtali við mbl.is.

Síðasta ár mikil vonbrigði

„Mér fannst ekki erfitt að koma aftur í deildina sjálfa en ég meiddist mjög illa í byrjun janúar og fór í aðgerð sem tók nokkra mánuði að jafna sig á. Svo kom maður til baka og þá lenti ég í kálfameiðslum.

Svo var ég frá um mitt sumarið í tvo og hálfan mánuð eftir að hafa meiðst aftan í læri. Svo þegar ég var kominn í ágætis stand fyrir úrslitakeppnina meiddist ég aftur á móti Breiðabliki á útivelli.

Ég var að glíma við eins meiðsli í janúar en þá var það hinn nárinn og ég fór þá í aðra aðgerð. Ég náði þannig aldrei að stimpla mig inn í þessa deild. Maður náði einhverjum mínútum hér og þar, ég held að ég hafi náð einum leik í 90 mínútur.

Loksins þegar mér fór að líða ágætlega meiddist ég illa aftur. Síðasta ár var því mikil vonbrigði fyrir mig en á sama tíma gekk liðinu vel og það var gaman að vera hluti af því, eins mikið og maður gat.

Núna er vonandi komið að því að spila einhverja leiki í þessari deild og haldast heill. Annars er held ég komið að leiðarlokum hjá mér ef það gengur ekki í ár,“ sagði Rúnar Már hreinskilinn.

ÍA er spáð sjötta sæti í Bestu deildinni í ár í spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu á miðvikudag. ÍA heimsækir Fram í 1. umferð á sunnudag kl. 19.15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert