Líka erfitt fyrir Glódísi

Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Auðvitað er alltaf slæmt að missa frábæra leikmenn og frábæra leiðtoga en þetta er bara staðreyndin og það sem við erum að glíma við,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, um fjarveru fyrirliðans Glódísar Perlu Viggósdóttur vegna meiðsla.

Glódís Perla verður ekki með í tveimur heimaleikjum gegn Noregi og Sviss í A-deild Þjóðadeildarinnar. Báðir leikirnir fara fram á Þróttarvelli.

Þorsteinn Halldórsson og Ingibjörg Sigurðardóttir á fundinum í dag.
Þorsteinn Halldórsson og Ingibjörg Sigurðardóttir á fundinum í dag. mbl.is/Eyþór

„Það eru tveir leikmenn í hópnum sem hafa verið í landsliðsverkefni án þess að hún hafi verið með. Það er ekki algengt hjá okkur en þetta er það sem getur komið fyrir.

Leikmenn geta misst af leikjum og við þurfum að takast á við það. Ég hef enga trú á öðru en að þeir leikmenn sem taka við keflinu, þeir 11 leikmenn sem byrja og taka þátt, muni stíga upp.

Að þeir muni taka því hlutverki og fylla í það skarð sem hún skilur eftir sig, stíga aðeins upp og bæta aðeins í þannig að við komum til með að sakna hennar sem minnst,“ sagði Þorsteinn á fréttamannafundi í félagsheimili Þróttar í dag.

Í fyrsta sinn sem hún er ekki með

„Ég er sammála. Við erum búin að vera ótrúlega heppin að hafa haft hana heila í öll þessi ár. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að við stígum upp og lítum líka á þetta með jákvæðum augum, að þetta sé tækifæri fyrir aðra að stíga upp og sjá hvernig við tæklum það.

Á sama tíma viljum við styðja við Glódísi. Þetta er í fyrsta sinn sem hún er ekki með og það er erfitt fyrir hana líka,“ sagði Ingibjörg á fundinum.

Hún verður fyrirliði Íslands í fjarveru Glódísar Perlu. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert