Mér líður alltaf vel á Íslandi

Gemma Graigner og Ingrid Syrstad Engen voru kátar á blaðamannafundinum.
Gemma Graigner og Ingrid Syrstad Engen voru kátar á blaðamannafundinum. mbl.is/Eyþór

Gemmu Graigner, þjálfari norska kvennalandsliðsins í fótbolta, líður ávallt vel þegar hún kemur til Íslands. 

Ísland tekur á móti Noregi í A-deild Þjóðadeildar Evrópu á Þróttarvelli á morgun. Íslenska kvennalandsliðið verður að nota Þróttarvöllinn þar sem Laugardalsvöllur er ekki klár. 

Graigner er spennt fyrir leiknum á morgun og segir að það sé alltaf tekið vel á móti henni hérna. 

„Mér líður alltaf vel á Íslandi. Það er sól úti og tilfinningin er góð,“ sagði þjálfarinn við mbl.is. 

Liðin verða öðruvísi

Ísland er með Noregi og Sviss í Þjóðadeildarriðlinum en einnig í riðli á Evrópumótinu í Sviss í sumar. Ísland og Noregur hafa nú þegar mætt Sviss einu sinni hvort og eiga seinni leikinn eftir. 

Þá eiga Ísland og Noregur eftir að mætast tvisvar fyrir Evrópumótið. Þó er nokkuð um skakkaföll í liðunum tveimur en fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir er til að mynda ekki með. 

Þá eru norsku stjörnurnar Caroline Graham Hansen og Guro Reiten ekki með Noregi sem og reynsluboltinn Maren Mjelde. 

„Þetta er áhugavert. Þegar það var dregið í desember þá sá ég að við myndum spila við Ísland og Sviss þrisvar á hálfu ári, sem er svolítið undarlegt. 

Hins vegar eru Chelsea og Manchester City að mætast fjórum sinnum á tveimur vikum, sem er enn ótrúlegra, þannig þau sigra okkur þar. 

Liðin verða öðruvísi á EM. Þannig ég held að aðalmarkmiðið á morgun sé bara að vinna, frekar en að læra á andstæðinginn. 

Leikirnir í Þjóðadeildinni eru engir æfingaleikir og margt er í húfi. 

„Það má ekki gleyma því að þetta er Þjóðadeildin, ekki vináttulandsleikir. Ég hef verið þjálfari Noregs í yfir eitt ár og ekki enn spilað einn vináttuleik, sem er merki um þróun kvennaboltans. 

Þjóðadeildin hefur áhrif á HM 2027. Þannig við verðum að setja alla einbeitingu í þetta verkefni,“ hélt Graigner áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert