Neydd til að læra spænsku

Hildur Antonsdóttir glöð í bragði á landsliðsæfingu.
Hildur Antonsdóttir glöð í bragði á landsliðsæfingu. mbl.is/Eyþór

Hildur Antonsdóttir, landsliðskona í fótbolta, skipti yfir í spænska félagið Madrid CFF frá Fortuna Sittard í Hollandi fyrir tímabilið. Hún kann vel við sig í spænsku höfuðborginni.

„Það er mjög huggulegt. Þetta er geggjuð borg og gaman að búa þar. Það er nóg af fólki í borginni en ég bý aðeins fyrir utan og get kúplað mig út úr því.

Mér líður mjög vel hjá þessu félagi. Það er hugsað vel um okkur, æfingarnar eru góðar og þetta er flott,“ sagði Hildur í samtali við mbl.is.

Hún er orðin sleip í spænskunni eftir nokkra mánuði þar í landi.

„Ég myndi segja það. Allar æfingar fara fram á spænsku og ég er í spænskukennslu tvisvar í viku. Margir leikmenn tala ekki ensku og ég þarf að geta talað við þær. Maður er neyddur til að læra spænsku.“

Ásdís Karen Halldórsdóttir kom til Madrídarfélagsins í janúar og Hildur er ánægð með að fá löndu sína til Spánar.

„Það munar miklu að fá annan Íslending í liðið. Það hjálpar alltaf og það er gott að geta talað íslensku saman.“

En hver er munurinn á boltanum í Hollandi og á Spáni?

„Ákefðin er meiri og leikmenn líkamlega sterkari og sneggri. Þetta er skref fram á við þegar kemur að því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert