„Tilfinningin er mjög góð og líka svona smá ógnvænleg. En jú ég er bara spennt,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir sem er fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu í fjarveru Glódísar Perlu Viggósdóttur. Ísland mætir Noregi og Sviss í A-deild Þjóðadeildarinnar á næstu dögum.
„Á ég að skipta eða?“ spurði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari í léttum dúr á fréttamannafundi í félagsheimili Þróttar þegar Ingibjörg sagði tilfinninguna ógnvænlega. Hún hló og hélt svo áfram:
„Þetta er mjög mikilvægt og eitt það stærsta sem maður getur gert, að vera fyrirliði í landsliðinu. Ég tek þessu mjög alvarlega og vil gera það vel. En síðan finn ég einhvern veginn enga pressu heldur.
Ég er búin að vinna mjög þétt með Selmu og Glódísi lengi og við erum búnar að vinna vel saman sem teymi. Ég veit að ég þarf að vera akkúrat eins og hef ég verið síðustu mánuði og síðustu ár með landsliðinu. Þetta er mikill heiður og ég er mjög stolt.“
Ingibjörg og Selma Sól Magnúsdóttir eru varafyrirliðar Íslands og hafa myndað leiðtogateymi með Glódísi Perlu.
Spurð hvort um hápunkt á ferlinum sé að ræða fyrir hana sagði Ingibjörg:
„Já, það er algjörlega þannig. Ég þrífst í svona hlutverki þar sem ég þarf að taka ábyrgð, stýra og leiða hópinn. Þess vegna er þetta mjög stórt fyrir mig og ég er mjög spennt að sjá hvernig ég næ að tækla þetta.
Ég ætla að undirbúa mig vel fyrir það. Síðan er þetta líka stórt fyrir alla í kringum mig. Fjölskyldan er búin að fylgja mér mjög lengi þannig að þetta er örugglega stærra fyrir hana heldur en mig sjálfa. Ég er spennt fyrir þessu.“